Nemendur

Skólareglur Kóraskóla

„Hver grunnskóli skal setja sér skólareglur sem skylt er að fara eftir. Skólastjóri, kennarar og aðrir starfsmenn, nemendur og forráðamenn þeirra skulu í sameiningu kosta kapps um að starfsandi og skólabragur í skólanum sé sem bestur og eiga skólareglur að stuðla að því. Forsendur góðs starfsanda eru vellíðan, gagnkvæmt traust, virðing og samábyrgð allra í skólasamfélaginu.“

Í Kóraskóla er lögð áhersla á að við berum virðingu fyrir hvert öðru sem nemendur, foreldrar og starfsfólk. Öll eiga rétt á að njóta öryggis, vera laus við stríðni, meiðingar, hrekki og einelti.

Skólareglur Kóraskóla hafa það að markmiði að skapa nemendum og starfsfólki góðan vinnustað þar sem öll geta notið sín í góðum vinnufriði með hlýlegu andrúmslofti. Leitast er við að leiðbeina nemendum um ásættanlega hegðun með uppbyggilegum hætti.

Við viljum að umgengni um skólann sé góð

  • Við neytum matvæla eingöngu í matsalnum
  • Í matsalnum göngum við snyrtilega frá eftir okkur og flokkum rusl
  • Við göngum vel og þrifalega um skólann og berum virðingu fyrir eignum skólans og annarra
  • Við neytum ekki sælgætis, gosdrykkja eða orkudrykkja í skólanum
  • Við förum úr útiskóm, setjum í hillur og hengjum upp yfirhafnir
  • Við höldum skólastofum hreinum og snyrtilegum, krotum ekki á borð og röðum stólum
  • Við hreyfum aldrei við öryggisbúnaði skólans

Við berum virðingu fyrir hvert öðru og beitum ekki ofbeldi 

  • Við beitum ekki ofbeldi af neinu tagi
  • Við sýnum ávallt virðingu, tillitsemi og kurteisi í samskiptum við aðra
  • Við förum eftir fyrirmælum starfsfólks
  • Hlutir sem geta valdið skaða á alvarlegan hátt eru óheimilir í skólanum
  • Við berum virðingu fyrir eigum okkar, skólans og annarra

Við berum ábyrgð á náminu okkar og sinnum því

  • Við mætum stundvíslega í tíma
  • Við berum sjálf ábyrgð á því að skila verkefnum á réttum tíma
  • Við notum ekki tóbak, rafrettur, munntóbak, -púða eða önnur ávanabindandi efni á skólatíma
  • Við förum eftir símareglum skólans
  • Við mætum með öll námsgögn í skólann og fullhlaðna spjaldtölvu
  • Við leggjum okkur fram við verk okkar

Reglur um notkun símtækja

Nemendum skólans er heimilt að vera með símtæki í skólanum ef farið er eftir reglum sem eru í gildi. Þau sem treysta sér ekki til að fara eftir reglunum er bent á að skilja símtæki eftir heima.

Í skólanum er leyfilegt að nota símann á GRÆNUM SVÆÐUM í frímínútum og matartímum.

Í skólanum er EKKI leyfilegt að nota símann á RAUÐUM SVÆÐUM t.d. í kennslustundum og kennslustofum.

Símtæki eru á ábyrgð nemenda í skólanum. Athygli er vakin á því að skólinn bætir ekki tjón vegna þjófnaðar eða skemmda.

Ekki er heimilt að nýta símtæki til að taka upp eða dreifa efni úr skólastarfinu.

Ef nemandi verður uppvís að notkun símtækja á RAUÐUM SVÆÐUM skal hann ganga frá símtækinu í töskuna ásamt því að kennari skráir atvikið í mentor „óheimil símanotkun“.

Eftir þrjár skráningar fer upplýsingapóstur heim til foreldra/forráðamanna.

Eftir fimm skráningar eru nemandi og foreldri/forráðamaður kölluð til fundar með kennurum og stjórnendum.