Foreldrarölt

Foreldrarölt 2023-2024

Foreldraröltið þetta skólaárið er sameiginlegt fyrir Hörðuvallaskóla og Kóraskóla. 

Tilgangur foreldrarölts er m.a. að kanna hvar unglingahópar halda sig eftir að leyfður útivistartími er liðinn, kanna hvernig ástandið er á þeim og hvað þeir eru að gera. Ef um miklar hópamyndanir er að ræða er reynt eftir fremsta megni að koma unglingunum heim. 

Öflugt foreldrarölt hefur jákvæð áhrif á hverfisbraginn og það félagslega umhverfi sem börnin okkar og vinir þeirra búa við. Foreldraröltið býr til gott tengslanet og auðveldar samskipti meðal foreldra og forsjáraðila í hverfinu. Besta forvörn óæskilegra hópamyndana unglinga er sýnileiki fullorðinna. Öryggi hverfisins er á okkar ábyrgð og því færri óæskilegar hópamyndanir og því meiri sýnileiki foreldra og forsjáraðila því betri forvörn gegn notkun vímuefna, einelti og ofbeldi. Allir þessir hlutir ógna öryggi hverfisins sem hefur hugsanlega bein eða óbein áhrif á börnin okkar. 

Bekkjarfulltrúar hvers árgangs eru beðnir um að hafa umsjón með mönnun foreldraröltsins í sínum árgangi. Skemmtilegast er þegar margir foreldrar taka þátt, en ýmis mál eru rædd og leidd til lykta á röltinu um hverfið okkar s.s. hvernig er best að fá börnin okkar til að lesa og hvað virkar best til auka áhugann.

Foreldraröltið verður með eftirfarandi sniði þetta árið:

  1. Rölt verður á föstudagskvöldum. Mæting kl. 22 við aðalinngang Kóraskóla þegar Kóraskóli á röltið.
  2. Röltið er þannig skipulagt að foreldrar 1.-2. bekkjar röltir tvö kvöld en 3. og 4. bekkjar þrjú kvöld og 5. – 10 bekkur fjögur kvöld.
  3. Á mánudegi fyrir rölt munu allir foreldrar í árganginum fá tölvupóst með tengil í skráningarskjal þar sem að þeir skrá sig á rölt. Bekkjarfulltrúar munu svo hvetja foreldra til að taka þátt. Munum að foreldraröltið er á ábyrgð okkar allra. Við erum að sinna samfélagslegri skyldu okkar með að huga að velferð og öryggi barnanna í hverfinu.
  4. Peningaverðlaun verða gefin í vor fyrir þrjú efstu sætin yfir þá árganga sem mæta best á röltið.

Foreldraröltsvaktir má finna hér.

Verum dugleg að mæta í röltið það hressir og bætir andann og líkamann.