Lög foreldrafélagsins

Lög foreldrafélags Kóraskóla

1. gr.
Nafn félags og aðild
Félagið heitir Foreldrafélag Kóraskóla. Félagar eru foreldrar og forráðamenn nemenda í skólanum.

2. gr.
Markmið og leiðir
Markmið félagsins er að vinna að heill og hamingju nemenda skólans og styrkja skólann í hvívetna. Markmiðum sínum hyggst félagið ná með því meðal annars að:
• Efla kynni foreldra innbyrðis og koma á umræðu og fræðslufundum m.a. um uppeldis og skólamál í samráði við skólann.
• Leggja skólanum lið svo að aðstæður til náms og félagsstarfa verði sem bestar hverju sinni.
• Koma á framfæri sjónarmiðum foreldra varðandi skóla- og uppeldismál.
• Veita skólanum aðstoð til ákveðinna verkefna og starfa í skólanum.
• Styðja og efla hverja þá starfsemi, sem stuðlar að auknum þroska og menningu skólans.
• Efla hverfisanda og liðsheild hverfisbúa í samvinnu við íbúa, félagasamtök og aðra sem vilja láta til sín taka.

3. gr.
Stjórn félagsins
Stjórn félagsins skal skipuð þremur einstaklingum og tveimur til vara, kjörnum til eins árs í senn. Tryggt skal að stjórnin sé skipuð a.m.k. einu foreldri úr hverjum árgangi skólans. Æskilegt er að einn af stjórnarmönnum sé einnig fulltrúi foreldra í skólaráði, sbr. 5.gr. laga þessara. Formaður skal kosinn sérstaklega á aðalfundi og skal hann kosinn úr hópi kjörinna stjórnarmanna. Stjórn skal að öðru leyti sjálf skipta með sér embættum; ritara og gjaldkera.
Á stjórnarfundi ræður afl atkvæða úrslitum mála. Falli atkvæði á jöfnu telst tillaga felld.
Stjórn skal setja sér starfsreglur og starfsáætlun fyrir skólaárið. Hún skal einnig veita bekkjarfulltrúum og nefndum leiðbeiningar eftir því sem við á. Stjórn félagsins heldur fundi a.m.k tvisvar sinnum á önn eða fjórum sinnum yfir skólaárið. Stjórnin heldur almennan foreldrafund á skólaárinu og kynnir starf foreldrafélags og skólaráðs skólans.
Stjórn ber ábyrgð á að kalla eftir framboðum til fulltrúa í skólaráð og eftir atvikum að sjá til þess að frambjóðendur séu til staðar í þau embætti á aðalfundi.
Stjórn sinnir ekki klögumálum eða hefur afskipti af vandamálum er upp kunna að koma á milli foreldra og/eða starfsmanna skólans.
Stjórn félagsins getur skipað nefndir um afmörkuð verkefni á ábyrgð stjórnarinnar og samkvæmt fyrirmælum hennar.

4. gr.
Aðalfundur
Aðalfundur skal haldinn í september ár hvert. Stjórnin boðar til fundarins í samstarfi við fulltrúa foreldra í skólaráðinu með minnst viku fyrirvara. Boðun má fara fram með rafrænum hættir.
Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað. Í fundarboði skal kynna efni fundarins.
Verkefni aðalfundar:
• Kosning fundarstjóra og fundarritara
• Skýrsla stjórnar
• Lagabreytingar
• Reikningar lagðir fram til samþykktar
• Kosning stjórnar og formanns
• Kosning skoðunarmanns reikninga
• Kosning tveggja fulltrúa og varafulltrúa í skólaráð til eins árs
• Ákvörðun félagsgjalda fyrir komandi skólaár
• Önnur mál
Fundarstjóri úrskurðar í ágreinings- eða álitamálum á fundum félagsins og eru úrskurðir hans endanlegir.

5. gr.
Skólaráð
Á aðalfundi skal í samræmi við 8. gr. grunnskólalaga nr. 91/2008 kjósa tvo fulltrúa í skólaráð og skulu þeir kosnir til eins árs í senn. Jafnframt skal kjósa a.m.k. tvo varamenn. Samráð skal vera á milli stjórnar foreldrafélagsins og fulltrúa foreldra í skólaráði. Æskilegt er að a.m.k. annar skólaráðsfulltrúi sé einnig stjórnarmaður í foreldrafélagi Kóraskóla.

6.gr.
Bekkjarfulltrúar
Stjórn foreldrafélagsins ber ábyrgð á að í upphafi skólaárs, á fundi sem skólastjóri og/eða kennarar boða til með foreldrum/forráðamönnum hvers bekkjar til kynningar á skólastarfinu, séu kosnir tveir til þrír fulltrúar forráðamanna úr hverri bekkjardeild til eins árs í senn til að stýra foreldrastarfi innan viðkomandi bekkjar. Stjórn félagsins ber ábyrgð
á og skal hafa samstarf við skólastjóra og/eða kennara um að framangreind kosning eigi sér stað.
Bekkjarfulltrúar starfa á vegum foreldrafélagsins sem getur sett þeim starfsreglur.
Bekkjarfulltrúar mynda fulltrúaráð foreldrafélagsins. Hlutverk bekkjarfulltrúa er að efla og styrkja samstarf foreldra og barna og leitast við að treysta samband heimilis og skóla innan hverrar bekkjardeildar með nánu samstarfi við umsjónarkennara.

7. gr.
Breytingar á lögum
Lögum þessum verður aðeins breytt á aðalfundi með samþykki einfalds meirihluta fundarmanna, enda hafi tillögur um lagabreytingar verið kynntar í fundarboði.
Breytingartillögur verða að berast stjórn í tæka tíð fyrir aðalfund svo taka megi þær á dagskrá.
Fundarstjóri úrskurðar um lagabreytingatillögur og breytingatillögur við þær. Úrskurður fundarstjóra er endanlegur.