Tekið af: Hagnýtar upplýsingar fyrir nemendur (þar má finna frekari upplýsingar)
Spjaldtölvur hafa á undanförnum árum sannað gildi sitt í skólastarfi víða um heim og mestu jákvæðu áhrifin verða þegar hver nemandi hefur sína eigin spjaldtölvu. Með því að nota spjaldtölvu í námi er vonast til að þú hafir meira val um hvernig þú vinnur verkefni og að námið verði skemmtilegra og fjölbreyttara og að þú getir lært á þann hátt sem hentar þér best.
Reglur:
– Spjaldtölvan sem þú ert með er fyrst og fremst námstæki. Þú átt að fara eftir fyrirmælum kennara og starfsfólks skóla um notkun hennar.
– Spjaldtölvan þín kemst sjálfkrafa á þráðlausa netið í skólanum sem heitir Kopavogur. Þú skalt ekki reyna að tengjast neinu öðru neti í skólanum. Ef þú ert í vandræðum með að tengjast netinu í skólanum, láttu þá kennara strax vita. Það er ekki leyfilegt að breyta netstillingum í spjaldtölvunni.
– Fyrir utan skólatíma eru það foreldrar sem ráða hvað þú mátt vera lengi í tölvunni. Reyndu að finna hvað er hæfilega mikill tími fyrir þig og farðu eftir þeim reglum sem foreldrar eða forráðamenn þínir setja. Það er heldur ekki sniðugt að vera mikið í spjaldtölvunni seint á kvöldin. Þá á hún að vera í hleðslu svo þú getir notað hana í skólanum næsta dag.