Nú stendur yfir innleiðing á nýrri aðferð í stærðfræðikennslu sem hefur kallast hugsandi kennslustofa (e. thinking classroom). Hugsandi kennslustofa gengur út á að:
- Nemendur fá krefjandi verkefni sem ekki er hægt að leysa án þess að hugsa, rökræða, rannsaka og prófa sig áfram.
- Í upphafi kennslustundar er dregið í litla hópa og mikilvægt að nemendur sjái að það sé gert á handahófskenndan hátt.
- Nemendur vinna verkefni standandi við tússtöflu, það er einn túss á hvern hóp og hann látinn ganga á milli.
Þessi aðferð hefur verið reynd víða og gefist vel. Hefur hún til dæmis reynst mörgum nemendum, sem eiga erfitt með að sitja og einbeita sér, vel þegar þeir fá frekar verkefnin upp á töflu til að vinna við en sitja við borð. Nýjar rannsóknir varðandi stærðfræðikennslu benda á að besta leiðin til að læra stærðfræði sé að innleiða og kenna nemendum að tileinka sér rannsóknarhugarfar þegar þeir takast á við verkefni í stærðfræði. Þar skiptir hraði engu máli og það er fínt að fá villur, því það er vísbending um að nemendur séu að læra eitthvað nýtt en út á það gengur hugsandi kennslustofa.