Hver grunnskóli ákveður hvort námsgreinar og námssvið eru kennd aðgreind eða samþætt en jafnframt skal þess gætt að námið verði sem heildstæðast. Í aðalnámskrá eru skilgreindir hæfniþættir á hverju námssviði og innan hverrar námsgreinar. Nemendur skulu eiga þess kost að uppfylla hæfniviðmið einstakra námsgreina og námssviða með mismunandi hætti. Sett eru matsviðmið um það hvenær nemandi telst hafa lokið einstökum námsgreinum eða námssviðum. (Aðalnámskrá grunnskóla, bls. 9)
Nám á að gera nemanda kleift að takast á við viðfangsefni daglegs lífs og jafnframt að búa hann undir að frekara nám og starf að skyldunámi loknu. Áhersla á alhliða þroska er þó ætíð í fyrirrúmi. Nemendur þurfa að fá tækifæri til að nýta styrkleika sína og áhuga til menntunar og aukins þroska og tengja námið því sem nemendur þekkja heima hjá sér úr eigin nærsamfélagi og í hinum stóra heimi (Aðalnámskrá grunnskóla, bls. 38)
Viðfangsefni sem tengja námið við daglegt líf og starfsvettvang efla læsi nemenda á umhverfi sitt. Þannig stuðla náms- og kennsluhættir námsgreina og lykilhæfni ásamt góðum skólabrag að alhliða þroska, velferð og lykilhæfni nemenda. (Aðalnámskrá grunnskóla, bls. 91)