Hvað er félagsmiðstöð?

Við erum svo heppin hér í Kóraskóla að í húsnæði skólans er starfrækt félagsmiðstöðin Kúlan sem heldur úti metnaðarfullu félagsstarfi fyrir börn og ungmenni. Það fjölbreytta og blómlega starf sem þar er unnið stuðlar að auknum félagsþroska ungmennanna sem þangað koma og taka þátt. Helstu markmið félagsmiðstöðva almennt eru að auka félags- og lýðræðisþátttöku ungs fólks, sinna forvörnum og veita börnum og unglingum stuðning og tækifæri til að sinna hugðarefnum sínum ásamt margvíslegum öðrum undirmarkmiðum. En í félagsmiðstöðinni eru ekki bara unglingar því að þar er einnig að finna hæfileikaríka starfsmenn sem búa yfir ómetanlegri fagþekkingu og reynslu og leggja þeir sig fram um að mynda uppbyggileg tengsl við ungmennin með það að markmiði að styrkja þau til framtíðar. Myndin sem fylgir fréttinni er dagskrá Kúlunnar í desember en eins og sjá má eru hún mjög fjölbreytt.

Posted in Fréttaflokkur.