Nemendaþing

Í dag fór fram nemendaþing Kóraskóla. Þingið er liður í undirbúningi fyrir árlegt barnaþing grunnskólanna í Kópavogi sem haldið verður 19. mars nk.

Kópavogsbær er barnvænt sveitarfélag og sem slíkt leitar það leiða til að auka lýðræði meðal grunnskólabarna í Kópavogi. Ein leið er að standa að árlegu skólaþingi í hverjum grunnskóla þar sem ræddar eru tillögur og hugmyndir sem eru svo sendar á árlegt barnaþing frá hverjum skóla.

Á barnaþing mæta fulltrúar frá hverjum grunnskóla auk fulltrúa frá ungmennaráði. Að afloknu þingi verða tillögur barnanna dregnar saman og lagðar fyrir bæjarstjórn. Lýðræðisleg þátttaka barna og ungmenna í nærsamfélaginu tengist jafnframt lokamarkmiðum lykilhæfni aðalnámskrár grunnskóla. Þá tengist lýðræðisleg þátttaka barna í samfélaginu ekki síst 12. og 13. grein Barnasáttmálans.

Meginmarkmið barnaþings er:

  • Að þjálfa börn og ungmenni í að tjá sig og geta rætt á skýran og viðeigandi hátt um hin ýmsu málefni.
  • Að börn og ungmenni geti tekið virkan þátt í samræðum og rökræðum og gert grein fyrir skoðunum sínum.
  • Að búa börn og ungmenni undir virka þátttöku í lýðræðislegu samfélagi.

Nemendur Kóraskóla fengu tækifæri til að koma með hugmyndir að umræðuefni. Út úr þeim hugmyndum voru dregnar fjórar spurningar sem nemendur leituðu í sameiningu svara við. Spurningarnar voru:

  1. Hvað finnst ykkur að megi gera í matarmálum nemenda í Kóraskóla?
  2. Hvernig tölvubúnað væri best fyrir nemendur að nota í skólastarfi?
  3. Skólaskylda nemenda á unglingastigi eru um 30 klukkustundir á viku (ca. 6 klst. á dag). Hvenær finnst ykkur að skólinn ætti að hefjast á morgnana?
  4. Hvað finnst ykkur að mætti bæta varðandi húsnæði Kóraskóla t.d. varðandi húsgögn, loftgæði, skólalóð, félagsmiðstöðina osfrv.?

Notast var við skipulag heimskaffis. Nemendum var skipt í hópa þvert á árganga og voru nemendur 10. bekkjar hópstjórar. Eftir að hafa svarað spurningunum fóru 8. 0g 9. bekkingar á önnur borð og kynntu sér það sem aðrir hófðu ákveðið. Þeir komu svo til baka í sína heimahópa og bættu við sínar hugmyndir ef þeim fannst tilefni til. Að lokum forgangsröðuðu nemendur áherslum. Allar niðurstöður hafa verið hengdar upp í skólanum og forgangsröðun verkefna sett upp í súlurit á mötuneytisganginum.

Posted in Fréttaflokkur.