Tíðindi frá Kóraskóla 9.2.2024

Á döfinni

Öskudagur 14. febrúar

14. febrúar verður öskudagur og verður uppbrot í skólanum þann daginn. Nemendur mega mæta í búning ef þau vilja. Við verðum með uppbrot á svæðum í fyrstu lotu og svo er búið að skipta skólanum í stöðvar seinni tvær loturnar þar sem margt spennandi og skemmtilegt verður í boði. Nemendur fara í hádegismat klukkan 11:30 þar sem pizza verður á boðstólnum. Eftir það lýkur skóla og nemendur fara heim.

Vetrarfrí 19. og 20. febrúar

Vetrarfrí verður mánudaginn 19. og þriðjudaginn 20. febrúar. Þá fellur öll kennsla niður.

Breytingar í starfsmannahópi

Nokkrar breytingar hafa orðið á starfsmannahópi skólans síðustu vikur.

  • Anna Björg Pálsdóttir hefur sagt starfi sínu lausu sem kennari í 10. bekk og farið í önnur störf. Í stað hennar kom Guðjón Gunnarsson sem áður hefur komið að kennslu í árganginum. Hann gengur í störf Önnu Bjargar og leysir þau út veturinn.
  • Ágústa Kristrún Ingvarsdóttir er komin inn sem kennari í 8. bekk.
  • Flóra Baldvinsdóttir og Nadía Atladóttir eru komnar inn sem forfallakennarar.

 

Myndir af nemendum

Þið eigið nú öll að hafa fengið póst frá Litmynd þar sem í boði er að skoða og panta ljósmyndir af nemendum. Hópmynd af nemendum 10. bekkjar verður einnig tilbúin fljótlega. Við ákváðum að taka myndir af öllum nemendum skólans í ár en venjan verður sú að tekin verður mynd af nemendum í 10. bekk, þá bæði einstaklings- og hópmynd.

 

Yfirfærsla á Google umhverfi

Í næstu viku munum við ljúka yfirfærslu yfir á @kopskolar.is umhverfið. Einhverjir nemendur vilja færa öll sín gögn af @horduvallaskoli.is drifinu sínu og yfir á kopskolar. Það er ekkert mál ef gert er í tölvu og hér má finna leiðbeiningar til að gera þetta í tölvu. Við biðjum ykkur um að ræða við ykkar barn hvort því vanti aðstoð við þennan flutning. Gamla drifinu verður fljótlega lokað og þá verður ekki hægt að nálgast gögn inni á því.

 

Skólaþing Kóraskóla

Í morgun var skólaþing Kóraskóla haldið. Markmið skólaþingsins eru að nemendur fái vettvang og rödd til að hafa áhrif á skólastarf Kóraskóla og starfsemi Kúlunnar, félagsmiðstöðvar. Nemendum var skipt í 8 – 10 barna hópa þvert á árganga þar sem nemendur í 10. bekk héldu utan um ritun hvers hóps fyrir sig.

Umræðuefnin á þinginu voru:

  • Með hvaða hætti er hægt að efla áhuga nemenda á lestri?
  • Hvernig getum við bætt umgengni í Kóraskóla?
  • Hvernig eflum við virkni nemenda í kennslustundum.
  • Annað sem nemendur vilja ræða eða vilja breyta í skólanum eða félagsmiðstöð.

Skólaþingið gekk vel og ræddu nemendur saman í 30-40 mínútur. Við höfum nú fengið töluvert af gögnum til okkar sem við munum vinna úr á næstu vikum.

Posted in Fréttaflokkur.