Tíðindi frá Kóraskóla 23.2.24

Á döfinni í Kóraskóla

Skipulagsdagur 12. mars

12. mars er skipulagsdagur og fellur þá kennsla niður í skólanum.

Áætlanir og ferlar á heimasíðunni

Við viljum vekja athygli á því að hægt og rólega eru áætlanir og ferlar að birtast inni á heimasíðunni okkar. Fyrr í haust voru skólareglur skólans gerðar og settar á heimasíðuna og nú hefur agaferill skólans bæst við. Arnór skólastjóri fór í alla árganga í dag og fór aftur yfir skólareglurnar og eins var agaferillinn útskýrður. Hann er nú kominn á heimasíðuna og má finna hér. Nemendur höfðu ýmsar spurningar um bæði reglurnar og agaferilinn og mynduðust skemmtilegar umræður í kjölfarið. Við hvetjum ykkur til að kynna ykkur ferilinn og vera í sambandi við okkur ef eitthvað er.

Við erum að vinna í fleiri áætlunum og stefnum í skólanum. Námsmatskaflinn í starfsáætlun er meira og minna nýyfirfarinn og verður uppfærður fljótlega á heimasíðunni. Eins má nefna að við erum að vinna í metnaðarfullri læsisstefnu sem einnig verður opinberuð í vor. Við vekjum samt athygli á því að þó svo að stefnurnar séu ekki komnar á prent þá er unnið ötullega að læsi í skólanum og eins er góður sameiginlegur skilningur á því hvernig námsmati er háttað.

Við hvetjum foreldra til að senda okkur línu eða vera í sambandi við okkur ef einhverjar spurningar vakna. Við erum alltaf tilbúin í samtal og finnst mikilvægt að fá endurgjöf frá foreldrasamfélaginu.

Yfirfærsla á Google umhverfi

Eins og áður hefur komið fram er yfirfærslu á google umhverfi úr horduvallaskoli.is yfir í kopskolar.is að mestu lokið og við höfum gefið grænt ljós á að loka Hörðuvallaskólaaðganginum. Enn er þó hægt að nálgast gögn inni á honum og við bendum aftur á að mjög auðvelt er að flytja gögn nemenda á milli svæða í borð- eða fartölvu. Við höfum smá áhyggjur af því að einhverjir munu sitja eftir með sárt ennið þegar gamla svæðinu verður lokað. Við biðjum því ykkur, kæru foreldrar, um að athuga hvort barnið ykkar þurfi að færa einhver gögn á milli. Við höfum áður sent leiðbeiningar um hvernig það er gert á auðveldan hátt.

8. og 9. bekkur tekur þátt í Pangea stærðfræðikeppninni

Þessa dagana stendur Pangea stærðfræðikeppnin yfir í 8. og 9. bekk og var töluverður hópur nemenda sem tók þátt í fyrstu umferð keppninnar. Hafa nú yfir 50 nemendur komist í aðra umferð keppninnar og eru það frábærar fréttir. Við fylgjumst áfram með því hvernig þeim mun ganga í keppninni. Nánari upplýsingar um hana má finna hér: https://www.pangeakeppni.is/

Posted in Fréttaflokkur.