Fyrsta útskrift 10. bekkjar úr Kóraskóla

Fimmtudaginn 6. júní var fyrsta útskrift nemenda úr Kóraskóla. Athöfnin fór fram með hátíðlegum hætti í Lindakirkju þar sem nemendur og fjölskyldur mættu prúðbúin í tilefni dagsins. Umsjónarkennarar árgangsins fóru yfir farinn veg í skemmtilegum pistli. Í kjölfarið stigu fjórir útskriftarnemendur á stokk, þau Carmen, Guðrún Þorbjörg, Viktor Bjarki og Ísak og fluttu ávarp fyrir hönd útskriftarhópsins.

Vilhjálmur Árni spilaði á píanó og Inga skólastjóri flutti ávarp til nemenda og fjölskyldna þeirra. Loks kom að stóru stundinni þar sem nemendur fengu afhentan vitnisburð.

Að athöfn lokinni var haldið í Kóraskóla þar sem foreldrar og skólinn buðu upp á glæsilegt hlaðborð og við áttum notalega kveðjustund. Þau voru ófá faðmalögin þann daginn.

Við erum stolt af hópnum sem kveður skólann og óskum þeim innilega til hamingju með áfangann. Öll eru þau tilbúin til þess að takast á við næstu verkefni lífsins. Það verður gaman að fylgjast með þeim í framtíðinni.

Posted in Fréttaflokkur.